Áhugaverðir staðir og afþreying
Guardamar del Segura
Aðeins tíu mínútna akstur er til Guardamar sem er smábær við ströndina með fjölda veitingastaða og þangað er aldeilis upplagt að keyra og njóta þess að fara í sjóinn og sóla sig, sturtuaðstaða er góð. Hægt er að leigja sólbekki, sturtuaðstaða er til staðar.
Tívolí og sirkus
Yfir sumarmánuði má finna farandsýningar eins og tívolí og sirkus í flestum bæjum og borgum á Spáni. Þeir eru yfirleitt nokkra daga í senn á hverjum stað og yfirleitt auglýstir á áberandi hátt með veggspjöldum. Í miðbæ Torrevieja við standlengjuna er einnig starfrækt tívolí allt árið.
Aqualandia vatnsgarðurinn og Aqua Park
Vatnsrennibrautagarður er á Benidorm. Margar sundlaugar með stórum rennibrautum fyrir alla aldurshópa. Nánari kynning á Aqualandia er að finna á meðfylgjandi slóð: www.aqualandia.net
Í næsta nágrenni er Aqua-Park sem er fallegur vatns leikjagarður fyrir alla aldurshópa. garðinum eru rennibrautir, sundlaugar, leikjagarður og veitingastaðir, gaman að verja ljúfri dagsstund í þessum skemmtilega garði. Aqua-Park er í sjö mínútna akstursfjarlægð og heimilisfang finnst undir nafninu „Quesada Aquarpark“ á Google maps. Garðurinn er opin yfir sumarmánuðina en nánar er hægt að kynna sér opnunartíma á meðfylgjandi slóð: www.aquaparkrojales.es
Terra Natura
Skemmtilegur dýragarður í Murcia, en þar ferðast gestir heimshorna og heimsálfa á milli með stuttri göngu gegnum garðinn og fræðast um dýr, landshætti og menningu. Annar slíkur er á Benidorm. Sjá nánar á meðfylgjandi slóð: http://murcia.terranatura.com/en/index.php
Reiðhjólaleiga
Cyclogical reiðhjólaleigan er í miðbænum, við götuna Calle los Arcos númer 7, sem liggur þvert á Laugaveginn, beygið til vinstri rétt innan við borgarhliðið inn í miðbæinn. Þarna er hægt að leigja hjól fyrir alla fjölskylduna. Hjálmar og pumpa fylgja. Nánari upplýsingar er að finna á meðfylgjandi slóð: www.cyclogicalcostablanca.com – hægt er að senda fyrirspurn á info@cyclogicalcostablanca.com eða hafa samband símleiðis: +34 637 48 73 77.
Golf og mini golf
Allir ættu að finna golfvöll við sitt hæfi, La Marquesa er í u.þ.b. fimm mínútna akstursfjarlægð. Á Costa Blanca svæðinu eru einnig vellirnir; La Finca, Los Colinas, Campoamor, Villa Martin og fleiri skemmtilegir vellir.
Minigolf-völlur er í botni götunnar Calle los Arcos, beygið til vinstri strax innan við borgarhliðið inn í miðbæinn. Þarna er líf og fjör og íslenski minigolf-klúbburinn hittist þar. Síminn er +34 966 189 599.
Heilsulind og líkamsrækt
Hjá heilsulind Spa La Laguna er boðið uppá margvíslega þjónustu, nudd og heilsumeðferðir, snyrtingu og förðun. Hægt að fara í heita potta og gufuböð og fleira. Frekari upplýsingar er að finna á meðfylgjandi slóð: http://hotellalaguna.com/en/spa/
Tímapantanir eru í síma +34 965 725577.
Líkamsræktarstöðin Elite Fitness er staðsett við Calle los Arcos og mögulegt er að kaupa vikukort eða eins dags aðgang.
Snóker og Bowling
Quesada Bowling höllin stendur við Calle los Arcos götuna nr. 15. Þar er einnig hægt að una sér við Dart leik og fá sér að borða.
Miðbærinn og þjónustukjarnar
Húsið stendur í íbúðahverfi í suður hluta Quesada bæjarins við Av.de Malaga 22. Í næsta nágrenni við íbúðina er kaffihús, heilsugæsla, tannlækna, kjötgallerý og verkfæraverslun. Einnig er að finna Jysk (Rúmafatalagerinn) og Aldi stórmarkaður með matvörur. Bensínstöð er í næsta nágrenni sem og Consum matvöruverslunin, nokkrir veitingastaðir og raftækjaverslun. Bærinn er rólegur og fallegur, með nokkrum þjónustukjörnum.
Stærsti kjarninn í næsta nágrenni er Laugavegurinn og stendur við Avenida de las Naciones. Þar er að finna fjölmarga veitingastaði, verslanir, bílaleigur, hjólaleigur, hárgreiðslustofur, tannlæknaþjónustu, apótek og margt fleira.
Laugavegurinn (Av. de las Naciones) og miðbærinn
Miðbærinn í Quesada laðar til sín marga gesti. Fjölmargar verslanir og veitingastaði er að finna á Laugaveginum og hliðargötum, en neðst við Laugaveginn er borgarhliðið. Bílaleigan OPENCAR er staðsett við Laugaveginn og þar er einnig að finna ýmsa afþreyingu eins og minigolf, bowling-höll og líkamsræktarstöð sem er staðsett við götuna Calle los Arcos sem liggur þvert á Laugaveginn strax innan við borgarhliðið.
Af góðum veitingastöðum má nefna Day and night, Banana Tree, Amstellería og fleiri. Góð stórverslun með matvöru er rétt utan við borgarhliðið og nefnist Masymas.
Kjarninn við Hótel La Laguna
Þessi bæjarkjarni er í rösklega hálftíma göngufjarlægð frá húsinu en í aðeins 5 – 10 mínútna akstursjarlægð. Við La Laguna eru nokkrar verslanir og apótek, barir, veitingastaðir auk þess sem góður veitingastaður og bar er á Hótel la Laguna sem bíður prýðisgóðan mat að degi sem og kvöldi. Aðrir veitingastaðir eru einnig að finna í sama kjarna og má þar nefna t.d.
Restaurante Pizzería 222 sem býður dásamlega góðar pizzur, staðurinn stendur við Calle Presidente de la Generalitat, í verslunarhúsinu fyrir neðan Hótel La Laguna. Nánari upplýsingar um veitingastaðinn er að finna á meðfylgjandi slóð: http://www.pizzeria222.com/dona-pepa/
Indian Ocean er fallega innréttaður veitingastaður sem býður uppá sérlega góðan Indverskan og stendur við götuna Calle Mallorca, 25. Nánari upplýsingar um veitingastaðinn er að finna á meðfylgjandi slóð: http://indianoceanrestaurante.com/
Kjarninn á Avenida del Mar
Við neðri endann á Avenida del Mar er þjónustukjarni, en þar er að finna matvöruverslun, bar og tvo veitingastaði. m.a. matvöruverslun (supermercado), bar og veitingastaði og má nefna veitingstaðinn Budapest sem staðsettur er á horni Avenida del mar og Avenida Antonio Quesada. Lífandi tónlist á kvöldin, fjölbreyttur matseðill og góður matur.
Kjarninn kringum veitingahúsið Antica Italia
Þessi litli kjarni ofarlega í Quesada bænum leynir á sér. Þar er verslun sem hefur á boðstólum lifrarkæfu, Remolaði, Toro vörur og fleira sem Dönum og Svíum þykir gott, enda búa margir Norðurlandabúar á þessu svæði.
Bar á efri hæð verslunarhússins er líflegur á kvöldin og sumir skella sér karaókí. Á milli barsins og ítalska veitingahússins er lítill staður, vinsæll fyrir ódýran og góðan mat um miðjan dag. Aðalstaðurinn er veitingahúsið Antica Italia, við Av. Antonio Quesada, 1. Á sumrin er þétt setið á veröndinni á þakinu þar sem gestir njóta útsýnisins og sólarlagsins, borða heimagert pasta eða dýrindis snitzel. Á veturna er vinsælt að sitja inni við og ylja sér við arininn ef kólnar með kvöldinu. Ráðlegt er að panta borð í síma +34 966 71 87 37.
Verslunarmiðstöðvar í nágrenni
Zenia verslunarmiðstöðin er stærsta verslunarmiðstöðin í héraðinu, glæný og glæsileg. Zenia er í sömu átt og Torrevieja og er í um 15 mínútna akstursfjarlægð. Verslunarmiðstöðin er eins og smábær, með stóru torgi í miðju og verslunar- og veitingahúsum í byggingu á tveimur hæðum sem mynda stjörnu um torgið. Í Zenia er að finna vel þekkt tískuvörumerki, stóra í þróttaverslun og margt fleira. Fjölmargir veitingastaðir eru í verslunarmiðstöðinni ásamt skemmtilegum leiktækjum fyrir yngstu kynslóðina og leikjahöll fyrir fullorðna. Hægt er að kynna sér frekari upplýsingar á meðfylgjandi slóð: https://zeniaboulevard.es/en/home
Habaneras er stór verslunarmiðstöð í næsta nágrenni. Þar má finna öll helstu merkin í tískuvörubransanum.
Carrefour er stór verslun með matvöru og sérvöru.
El Corte Ingles er stórt vöruhús staðsett í Elche, en þar er að finna öll helstu vörumerki í fatnaði og fleiru.
Lydl er lágvöruverslun með mikið af umhverfisvænum vörum, nýbökuðu brauði og bakkelsi.
Mercadona, Consum og Masymas, stórmarkaðir með matvöru á góðu verði.
Í miðbæ Torrevieja eru götumarkaðir um helgar. Þar er að finna allt milli himins og jarðar, fatnað, skó, búsáhöld, vefnaðarvöru, grænmeti, ávexti og fleira.